14.6.2010 | 11:55
BLOGG, tilraun nr. 3, I only say this....
Það er nú meira sem tækninni hefur fleygt fram síðustu ár og áratugi. Sem verandi kona á besta aldri er erfitt að fylgjast með. Allt niður í bleyjubörn eru nú komin með gsm-síma með ýmsu patenti innbyggðu svo sem, myndavél, gsp-staðsetningatæki, stjörnukíki ásamt hraðvirku eggjasuðutæki. Smá ýkjur, en samt.
Nú þarf ég að eignast tölvumyndavél og læra að setja inn myndir á bloggið. Aumingja börnin mín munu eiga verulega íþyngjandi mömmu á næstunni.
Ég var á þrælskemmtilegu tölvunámskeiði sl. haust og í framhaldi af því skráði ég mig inn á Facebook. Sonur minn setti mynd inn á Facebookið, en varð jafnframt að orði, að nú væri fokið í öll skjól, þar sem mamman væri komin með síðu. Tölvukennarinn ráðlagði okkur nemendum að vera bara dugleg að þreifa okkur áfram á tölvunni, við gætum ekki eyðilagt neitt, við værum ekki nógu klár til þess.Þetta fannst mér yndislega fyndið. Ég prufaði meira að segja eitt kvöldið að fara á vafasamar vefsíður. Þá var ég alein heima og átti ekki von á truflun, var búin að draga gluggatjöldin fyrir alla íbúðina til öryggis. Sá þarna myndir af fólki sem greinilega var á leiðinni í bað og hafði afklætt sig. Mér leið þarna eins og þjóf að nóttu og sagði engum frá, nema á námskeiðinu. Þetta var hið besta skemmtiefni í bekknum og fleiri álíka sögur voru sagðar, enda ekki eðlilegt hvað nemendur voru skemmtilegt fólk á öllum aldri.
Hendið mér bara upp á fjöll með viðeigandi tækjabúnað og matarbirgðir og ég skal elda ofaní 80 manns rétt eins og drekka vatn. Það er eins og ég hef alltaf sagt að ég er góð í svo mörgu og að eitthvað hlýtur að verða útundan.
Það gékk svolítið illa með þetta blogg. Í fyrstu tilraun fór ég að kanna púkaforritið og bloggið mitt hvarf. Í annarri tilraun ýtti ég óvart á vista og birta í staðinn fyrir vista uppkast. Já enginn verður óbarinn biskup. Ég ætla að halda ótrauð áfram og ekki láta deigann síga. Heyrumst.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.