Að borða allt súkkulaðið

Á föstudaginn sl. var ég mjög upptekin. Keypti samt inn í matinn til helgarinnar. Keypti þar inn súkkulaði 200 gr. í franska súkkulaðiköku ásamt fleiru. Og svo ætlaði ég að baka kökuna á laugardeginum. Á laugardeginum var svo mikið að gera að ég gat ekki bakað kökuna. Þannig að við hjónakornin átum allt súkkulaðið, sem átti að fara í umrædda köku. Á sunnudeginum fór ég út í búð og keypti 200 g. súkkulaði, aftur. Svo í gærkvöldi nennti ég ekki að baka umrædda köku þannig að við borðuðum með bestu lyst súkkulaðið sem ég hafði keypt. Í dag fór ég út í búð og keypti súkkulaði í kökuna, hún er reyndar bökuð og ekki snefill eftir að súkkulaði.

Jólaboð

Jæja nú er að sjóða hangikjötið fyrir fjölskyldujólaboðið á morgun. Keypt var hangikjöt hjá litlu einkafyrirtæki á Skemmuvegi í Kópavogi og verður spennandi að prófa. Búin að sjóða rauðkálið, mikið er þægilegt og einfalt og slá bara inn orðið rauðkál á netinu og hafa svo um margar uppskriftir að velja. Ég prófaði í fyrra að hafa bæði mjólk og rjóma í uppstúfinu, það kom ekkert betur út, nú verður bara mjólk og ekta smjör. Svo keypti ég hangikjötsbita sem ég sýð á morgun, þeir verða bornir fram heitir. Hangikjötsrúllurnar sem ég er að sjóða núna verða bornar fram kaldar. Hangikjötsilmurinn er ómótstæðilegur. Ég keypti líka nokkurs konar laufabrauð, sem er með kúmeni. Það hef ég ekki séð áður. Tengdamóðir mín býr til sherryfrómasið sitt sem er það besta í heimi. Ég hlakka til á morgun.

Innistæðulaus í búð 2

Ég sendi tölvupóst til þjónustufulltrúans í bankanum í morgun. Mér barst svar um leið, ég hef yndislegan þjónustufulltrúa. Málið var að meðal þeirra sem áttu að fá endurnýjuð debetkort um sl. mánaðarmót duttu nokkrir út af listanum, hvers vegna veit ég ekki. Ég var sem sagt ein af þeim. Ég fékk afsökunarbeiðni og elskulegheit. Nýja kortið verður tilbúið næsta mánudag. Mér tókst alveg furðulega að halda andlitinu í búðinni, en hefði ekki viljað upplifa þetta leiðindaatvik f. svona 20 árum þegar skrápurinn var þynnri. Ég hefði líka átt að fylgjast með gildistíma kortsins sjálf. Nú er ég að fara baka smákökur. Lifið heil.

Innistæðulaus í búð

Ég vaknaði snemma í morgun. Hitaði kaffi og ristaði brauð, sótti svo blöðin og gaf hr. Franz að borða. Svo gerði ég eitt og annað fyrir hádegi og fór svo í búð til að kaupa í matinn. Ég gaf mér góðan tíma til að kaupa inn og keypti ýmsar vörur. Á meðan að ég er alveg upptekin af hreinlætisvörum er maður við innkaupakassann með innistæðulaust kort, hann hringdi svo í Bankann og þetta var leiðrétt og maðurinn hélt sína leið eins og vera ber, þetta er svo leiðinlegt og vandræðalegt sagði aumingja maðurinn. Og nú var röðin komin að mér, hafði verslað frjálslega inn til heimilis eins og kona gerir þegar hún fær útborgað.
Mínu korti er hafnað vegna þess að gildistíminn rann úr 1. desember 2010, ekki vegna þess að peningar væru ekki fyrir hendi, heldur vegna þess að andsk.....kortið var útrunnið. Af hverju var mér ekki tilkynnt það í brefi frá íslandsbanka eða í heimabankanum mínum. Til að gera langa sögu stutta kom sonur minn syfjaður og pirraður á mömmunni sinni og leysti mig og vörur út. Þessi saga endaði vel.

Ég og jólin

Mig þyrstir í jól, ég bara get ekki beðið að setja upp jólaljós. Ég hlakka til jóla. Ég gat ekki beðið eftir öðrum að setja upp jólaljósin. Allt er á niðurleið í þjóðfélaginu. Ég er s.s. konan sem setti upp jólagarndínur og aðventuljðos í fyrradag. Við hjónin settum líka upp seríuna á svölum. Fyrir 2 vikum fór ég að tala um að taka niður jóladótið, honum fannst það of snemmt.
Og svo í fyrrakvöld, þegar ég var búin að elda fyrir hann dásamlegan mat, spurði ég hann hvort honum fyndist nokkur munur á því að setja upp seríu í glugga eða aðventuljós. Nei reyndar ekki sagði hann, er eitthvað eftir af kartöflustöppunni.

Axlabönd og hjónaband

Fórum hjónakornin í verslunarmiðstöð um helgina sem var. Erindi voru ýmisleg, m.a. að kaupa axlabönd á húsbóndann. Við gengum inn í búðina og sáum enga afgreiðslumanneskju á lausu. Leitum að beltum, sagði ég þá hljóta axlarböndin að vera þar hjá. Axlarbönd reyndust vera fyrir innan afgreiðsluborðið. Maðurinn fékk leyfi til að vippa sér inn fyrir og skoða. Hann var að handleika hvít axlabönd og ég sagði bara nei. Okkar nánasta fólk veit að hann tekur í nefið.
Svo kom hann sigri hrósandi með brún axlabönd, í allt að svona 3 brúnum tónum. Mér datt ekki í hug að minna hann á að hann á ekkert brúnt, heldur eru bláu tónarnir frekar ráðandi í fataskápnum. Ekki er hægt að ganga of langt. Já segi ég við afgreiðslumannin, eru axlaböndin til í mismunandi stærðum, nei segir hann, ein stærð fyrir alla, en þú hlýtur að sjá að maðurinn er mjög hávaxinn. Minn maður var óþolinmóður og vildi bara borga og fara heim með ómátuð axlabönd. Og ég sagði bara nei og maðurinn mátaði axlaböndin í búðinni og þau komu heim, þ.e.a.s. maður og axlabönd og koma. Við hlógum svo dátt í búðinni, afgreiðslumaðurinn, Siggi og ég yfir ráðsmennsku konunnar í innkaupunum.

Undur og stórmerki

Undur og stórmerki gerðust í dag. Ég fjárfesti í ryksugu loksins. Ég keypti almennilega ryksugu, sem í heimi bíla er á við Benz. Ég er búin að eiga 2 ryksugur keyptar í stórmarkaði og búin að fá nóg af lélegum ryksugum. Er búin að vera ryksuga í allan dag, eða þ.e.a.s. ryksugan búin að draga mig á eftir sér. Foreldrar mínir eiga eina slíka, að vísu orginal sem í dag kostar um Það bil 70-80 þús. Ég keypti mun ídýrari týpu sem mun vonandi duga vel.
Hr. Franz er ekki hress, hann fær í magann á fárra daga millibili og kvartar sárann. Þetta er bara aldurinn. Kettir upplifa háan aldur rétt eins og mannfólkið, ýmsir kvillar koma í ljós. Þess á milli sefur hann í besta stólnum og hefur engan áhuga á litlu flugunum í stofunni, reyndar eru þær bara tvær núna.

Lengi getur vont versnað

Lengi getur vont versnað. Nú er sennilega komið að endapunktinum varðandi skelfilegt úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart heimilum landsins. Ég get ekki skilið ráðamennina. Þeir neita að horfa á vandann og stinga höfðinu í sandinn eins og strútar. Hvers á fólk að gjalda.
Nú liggur fyrir að Geir Haarde fer einn fyrir landsdóm. Ég hefði frekar kosið að þau öll, Ingibjörg, Árni og Björgvin, hefðu farið fyrir dóminn. En fleiri ættu að fara s.s. Davíð O. Halldór Á. Og hvað með núverandi ríkisstjórn, Jóhönnu S. og Steingrím J., sem vilja gjarnan hafa vald til alls, en taka enga ábyrgð á einu né neinu.
Nýjar kosningar breyta engu, þetta er allt sama liðið. Það sem ég vil sjá er algjör umbylting, þ.e. þjóðstjórn og einstaklingskosning. Það versta er að við eigum fullt af hæfu fólki til að stjórna, sem er nú utan þings. Ég get líka nefnt 4-5 núverandi þingmenn sem ég treysti. Það er sárt að vera íslendingur í dag.
mbl.is Hrina af uppboðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

3 flugur á sveimi

Í nokkra daga hafa verið Þrjár litlar flugur á sveimi í stofunni minni. Alveg óþolandi, Þeim finnst langskemmtilegast að setjast á nefið á mér. Hva, áttu ekki kött gæti einhver spurt. Jú einmitt ég á kött, hr. Franz Jósef. Hann hins vegar er orðinn svo gamall að sjónin er farin að bila. Einn daginn lá hann í besta stólnum í stofunni, dottandi eftir matinn, og þá settist ein flugan á skottið á honum. Hann opnaði rifu á augun og gerði svo ekkert í málunum. Flugurnar eru því enn þá á sveimi.
Um síðustu helgi dvaldi hér á heimilinu af og til labradortík, sem heitir Perla. Við vissum ekki hvernig hr. Franz myndi bregðast við. Perla var bara inn í herbergi en hr. Franz sá hana þegar hún kom og fór. Skrýtið, aumingja Perla virtist vera hræddari við hr. Franz en hann við hana. Reyndar á sunnudeginum þegar að Perla fór var hr. Franz bálreiður yfir að hafa ekki fengið að kynnast henni betur, hann kvartaði sáran þegar hún var farin.
Í þessum skrifuðu orðum liggur Franzinn steinsofandi í besta stólnum í stofunni, aðeins að leggja sig. Hann á nefnilega fisk á diskinum sínum þannig að hann sefur ekki lengi. Það er svo skrýtið að þótt sjónin hans fari versnandi er lyktarskinið alveg í lagi. Hann getur greint það á augabragði þegar ég kem heim hlaðin innkaupapokum hvort það sé frosinn fiskur í farteskinu. Þess vegna hendi ég upp potti á eldavél með örlitlu vatni og sýð svona 3 minnstu bitana handa honum til að byrja með. Svo síðar sýð ég afganginn. Kettir eru gott fólk.

Í takt við annað

Þetta er bara í takt við annað í þjóðfélaginu. Alltaf fjölgar þeim sem þurfa að leita mataraðstoðar . Mér finnst ójöfnuðurinn sífellt að vera aukast, almenningur verður fátækari og eignaminni meðan að viðskiptajöfrar fá afskrifað endalaust.
mbl.is Laun varaborgarfulltrúa hækkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband