Hanna Birna segir stopp

Ég er ekki mikið hissa á því að Hönnu Birnu sé nóg boðið. Meirihluti borgarstjórnar er ekki starfi sínu vaxinn og raunar stórhættulegur. Hér er verið að eyðileggja metnaðarfullt starf leikskólanna og segja upp leikskólastjórum sem hafa sett allt sitt í starfið þrátt fyrir lág laun. Væri þetta gert ef leikskólastjórar væru karlmenn upp til hópa, mér er spurn. Málið er einfalt, þessi sameining leikskóla má EKKI komast í framkvæmd.
mbl.is Hættir sem forseti borgarstjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að klæja í puttana í nýjan kött, en ætla ekki að gera

Mig klæjar í puttana að fá nýjan kött. Að kaupa inn í matinn eins og ég hef gert í fjölda ára og ég skunda sem hraðast framhjá dýrahillum.Hér undanfarin ár hef ég keypt kattasand og hef reyndar skoðun á gæðum kattasands. Að kaupa túnfisk í vatni og frosna ýsu til að gleðja gamlan kött. Ég var að skoða heimasíðau hjá Kattholti og þar voru ýmsar kisur sem ég vildi taka að mér. En kisutímabilinu er lokið hér á heimili.Kisur eru gott fólk.

Veruleikafirring í hæstu hæðum

Núverandi ríkisstjórn best til þess fallin að verja hagsmuni Íslendinga, ef samningurinn á morgun verður felldur segir Steingrímur. Þvílík veruleikafirring í gangi.
mbl.is Óvíst hvort kjósa þyrfti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningar og hjón

Nú liggja fyrir kosningarnar varðandi Icesave í apríl. Ég ætla að segja NEI aftur en húsbóndinn er að hugsa sitt mál. Í upphafi var hann ákveðinn að segja JÁ en er svona að bræða þetta með sér. Nú erum við búin að búa í Hraunbænum í nokkuð mörg ár og kjósum í Árbæjarskóla. Við förum að sjálfsögðu saman á kjörstað og kjósum, hann kýs hvítt og ég kýs svart og svo kaupum við okkur gott kaffibrauð í bakaríinu á eftir. Það er alveg sama hve sterkar skoðanir við höfum á kosningum og stjórnmálum, það eru mannréttindi að geta myndað sér skoðun í friði. Sammála hjón eru góð hjón.

Ég er bálreið

Ég er bálreið og sár. Þessar tillögur borgarstjórnar Rvk.um niðurskurð og breytingar í leik- og grunnskólum eru andstyggilegar einu orði sagt. Mér er málið skylt að því leyti að ég hef unnið í mörg ár á báðum skólastigum. Ég þekki þess vegna vel til þessara mála. Þarna er verið að umbylta góðum skólum, segja upp leiðskólastjórnendum og skólastjórum f. einhverja smápeninga. Margir stjórnendur hafa tekið sér ársfrí til þess að mennta sig enn frekar og þetta eru þakkirnar. Mér finnst stundum þegar ég fylgist með fréttum að ástandið geti ekki vernsnað meira en orðið er, en það verður sífellt verra. Hvað næst, ég bara spyr.En að allt öðru, Franzinn er á sveimi hér enn. Við hjónakornin fórum í stórmarkað í morgun til að byrgja okkur upp með mat. Þegar við komum heim beið okkar engin köttur til að athuga innkaupapokana eða kvarta yfir því hve lengi við vorum að heiman. Við höfum í mörg ár átt heima í Hraunbænum en aldrei verið kattarlaus fyrr en núna. Kettir eru gott fólk og fer batnandi.

Kattarlaus eftir 18 ár

Aumingja hr. Franz Jósef fárveiktist fyrir rúmri viku síðan. Honum leið svo illa að hann varð að fá hvíld og sofna svefninum langa. Mig langar að hrósa Dýraspítalanum í Víðidal. Þar er afskaplega vel tekið á móti dýrum og þeirra eigendum í erfiðum aðstæðum. Síðustu dagar hafa verið skrýtnir að því leyti að við heyrum ýmiss hljóð sem við vorum vön að heyra frá Franzinum. Einnig er stundum komið upp í rúmið mitt á nóttunni. Ég held að hann sé að venjast vistaskiptunum og átta sig. Við ætlum ekki að taka að okkur kött næstu árin. Mér gremst svo mikið hvað fólk getur verið ábyrgðarlaust varðandi dýr, sérstaklega ketti. Það er eins og hundar séu hærra settir að því leyti. Mig langar til að eignast hund í framtíðinni hafi ég aðstæður til þess. Nú er stefnan sett á að eignast blóm að nýju. Ég er mikil blómakona, Franzinn át öll blóm, sérstaklega voru afskorin blóm mikil áskorun. Svona er þetta bara, aðstæður breytast í hinu daglega lífi og um að gera að reyna að aðlaga sig að aðstæðum hverju sinni, en þetta er sárt.

Enn um köttinn, hr. Franz Jósef

Í dag fékk ég staðfestingu á því sem mig hefur grunað um skeið. Franzinn er með sykursýki, ég talaði við dýralækni og þetta er niðurstaðan. Þessi mikli þorsti, tíð þvaglát og hann hefur lést, var 7,2 kg. á blómaskeiðinu. Það sem hægt er að reyna er að gefa honum insúlínsprautur daglega, ekki er hægt að gefa lyfið í pilluformi og ekki víst að honum muni batna. Get ekki séð fyrir mér að heimilisfólk hér, lesist ég, hlaupi á eftir honum dauðhræddum með sprautu í hendi. Nú hafa bæst við vatnsbólin á heimilinu. Á náttborðinu stendur vatnskanna, ef vatnið hefur lækkað niður í 1/3 af vatnsmagni veltir Franzinn henni umsvifalaust um koll með loppunni til að sýna vanþóknun. Vatnið fer auðvitað beina leið í sængina mína. Á stofuborði stendur stór blá plastskál með vatni. Í eldhúsi er minni blá plastskál líka, ásamt mjólk í rjómakönnu. Allar birgðir eru endurnýjaðar daglega. Hann hefur líka breyst varðandi mat. Núna vill hann hafa fjölbreyttari fæðu þannig, að ég gef honum minna af hverju fyrir sig en oftar. Ég á í frystinum sem sagt litla pakka af fiski, nautahakki og kjúklingabitum og svo túnfiskdósir, hann er ekkert hrifinn af rækjum.

Er fólk fífl eða hvað

Nú liggur fyrir skelfilegur niðurskurður í mikilvægum málaflokkum. Víða er verið að gera heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni óstarfhæfar, litlum dvalarheimilum lokað og eldri borgarar eiga að flytja burt langt frá sinni heimabyggð, niðurskurður í skólum og margt fleira. Svo reyna stjórnmálamenn að fullvissa fólk að GRUNNÞJÓNUSTAN verði tryggð og í rauninni breytist ekkert til hins verra, gott ef að kerfið verði ekki bara betra með niðurskurðinum. Þeir halda sumir hverjir að fólk sé fífl.
Ég var á móti því að kjósa til stjórnlagaþings í haust, mér fannst að það mætti bíða betri tíma. En ég fór og kaus og sumir mínir menn og konur komust að. Nú verður ef til vill kosið aftur. Ef svo fer mun ég einfaldlega kjósa það fólk sem komst að. Þetta er hið sorglegasta mál fyrir yfirvöld, en ekki má gleyma því fólki sem var kosið og ekki réttlætanlegt að aðrir komist að ef kosið verður aftur, það bara gengur ekki.

Meira um köttinn hr. Franz Jósef

Ég minntist á í síðasta bloggi að hann væri erfiður í sambúð. Hann er auðvitað orðinn svo gamall og lúinn, og þess vegna sérlundaður. Hann hefur reynt ýmislegt á sinni löngu ævi. Um tíma var hann í góðu fóstri á heimili í Eikjuvoginum. Þar var ungur maður sem hugsaði um hann. Heimilið var á jarðhæð þannig að hr. Franz gat gengið þar út og inn um stofugluggann. Honum fannst best að fá að drekka ískalt vatn í baðinu og það var líka látið renna allan daginn fyrir hann. Svo tók húsbóndinn eftir því að mikið var borðað af kattamatnum meðan hann var í vinnunni. Og ekki löngu seinna kom í ljós að hr. Franz var að bjóða kattafélögum sínum heim í mat og sófa yfir daginn og var hann stundum steinsofandi seinnipartinn með annan kött sér við hlið.
Í dag sefur hann mikinn hluta sólarhringsins. En hans fótaferðatími er frá tæplega 5 á morgnana og til tæplega 5.30. Þá er engin friður og húsmóðirin verður að staulast fram og hræra í matnum eða bæta á hann og gjarnan leyfa honum að drekka ískalt vatn í baðinu. Einnig verður að vera til reiðu vatnskanna á náttborði. Oft er ég frekar pirruð á morgnana þegar að hann vaknar og vekur mig. Ég hef reynt allt. Að liggja hreyfingarlaus, að passa að opna ekki augun, að snúa mér upp í horn, þýðir ekkert. Hann situr þarna eins og fálki, malar hátt og setur í mig loppuna. Ef að hr. Franz Jósef vill að fólk vakni, ja þá bara vaknar fólk. Kettir eru gott fólk.

Fréttir úr Hraunbæ

Jæja þá er ég búin að panta fyrir okkur hjónakornin í Gesthúsum á Selfossi fyrir Landsmót Fornbílaklúbbsins í júní n.k. Fáum meira að segja sama hús og í fyrra. Vísa í fyrri blogg þar sem við fukum um á tjaldsvæðinu með skotheldan búnað, að við töldum. Annars er allt gott að frétta, hr. Franz Jósef yngist nú ekki, er bara erfiður í sambúð, en hvers er hægt að krefjast af 18 ára ketti. Bið að heilsa þangað til næst.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband