28.2.2011 | 15:47
Enn um köttinn, hr. Franz Jósef
Í dag fékk ég staðfestingu á því sem mig hefur grunað um skeið. Franzinn er með sykursýki, ég talaði við dýralækni og þetta er niðurstaðan. Þessi mikli þorsti, tíð þvaglát og hann hefur lést, var 7,2 kg. á blómaskeiðinu. Það sem hægt er að reyna er að gefa honum insúlínsprautur daglega, ekki er hægt að gefa lyfið í pilluformi og ekki víst að honum muni batna. Get ekki séð fyrir mér að heimilisfólk hér, lesist ég, hlaupi á eftir honum dauðhræddum með sprautu í hendi. Nú hafa bæst við vatnsbólin á heimilinu. Á náttborðinu stendur vatnskanna, ef vatnið hefur lækkað niður í 1/3 af vatnsmagni veltir Franzinn henni umsvifalaust um koll með loppunni til að sýna vanþóknun. Vatnið fer auðvitað beina leið í sængina mína. Á stofuborði stendur stór blá plastskál með vatni. Í eldhúsi er minni blá plastskál líka, ásamt mjólk í rjómakönnu. Allar birgðir eru endurnýjaðar daglega. Hann hefur líka breyst varðandi mat. Núna vill hann hafa fjölbreyttari fæðu þannig, að ég gef honum minna af hverju fyrir sig en oftar. Ég á í frystinum sem sagt litla pakka af fiski, nautahakki og kjúklingabitum og svo túnfiskdósir, hann er ekkert hrifinn af rækjum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.