Færsluflokkur: Bloggar

Fornbílaklúbburinn, næsta Landsmót 2012

Nú erum við búin að panta hús hjá Gesthúsi á Selfossi f. næsta Fornbílamót 2012. Verðum þannig pottþétt í hlýju húsi, með uppábúnu hjónarúmi og ætlum að skemmta okkur rosalega vel. Hlakka mikið til að hitta gamla Fornbílafélaga og dást að bílunum þeirra. Ég ætla alls ekki vísa í fyrra blogg þar sem við fukum um ásamt tjaldi á tjaldsvæðinu á Selfossi. Að hitta Fornbílaklúbbsfólkið er bara mikið gaman enda með fádæmum hvað það fólk er skemmtilegt. Sjáumst í júní.

Hvað er málið með karlmenn og innkaup

Jólin okkar voru yndisleg og gerast ekki betri. Fengum að vera með báða 2 ömmu- og afastrákana. En í gær fórum við hjónakornin semsagt í stórmarkað sem var opinn til að athuga með úlpu á húsbóndann og kaupa eitthvað gott í matinn. Við tókum strikið beint í herradeildina til að skoða úlpur. Ekki var nú mikið úrval og sérstaklega ekki í stærri stærðum. Enn merkilegt nokk þá fann húsbóndinn úlpu sem var nógu stór á hann, hlý og með alvöru hettu. Kaupum þetta bara sagði bóndinn og förum yfir í matvörudeildina. Ég þurfti aðeins að koma við í nærfatadeild f. konur og sagði að ég ætlaði aðeins að skoða og hann ætti að bíða með kerruna. Það gat hann ekki, heldur keyrði kerruna fram og aftur fram hjá nærfatadeildinni.

Og svo var farið í matvörur. Okkur vantaði ljósaperur í jólastjörnu, okkur vantaði mjólk, meðlæti með steik, mig langaði líka í konfekt, mig vantaði brauð og álegg. Hann eins og einbeittur skæruliði með körfuna og ég hlaupandi á eftir. Rétt eftir að við hlupum fram hjá konfektinu gerði ég uppreisn. Hann semsagt skynjaði að ég var ekki par ánægð og stoppaði og ég sagði við hann rólega og stundarhátt að hann væri ÖMURLEGUR. Eftir þetta lukum við innkaupunum og maðurinn róaðist. Skrýtið að þegar við vorum á heimleið með úlpu, konfekt, nærföt f. konur ásamt öðru þá var allt í einu nógur tími.

Já þá var allt í einu tími til að fara á 2 bensínstöðvar til að leita að Bændablaðinu sem betur fer fékkst, síðan var farið heim. Bændablaðið var lesið og eldaður flottur matur.


Hagstofa Íslands tekin í sátt á ný

Allt gekk þetta nú vel að lokum varðandi Hagstofuna en ég var orðin nokkuð langeygð eftir verðlaununum. Yndisleg kona kom heim til mín til þess að eiga við mig viðtal og fór vel á með okkur. Ég var að sjálfsögðu komin með nokkur A-4 blöð þéttskrifuð varðandi öll okkar útgjöld en þurfti að spyrja um nokkur atriði. Ég held að Hagstofan hafi grætt á því að hafa mig í úrtakinu því ég tók þátt af heilum hug, hringdi gjarnan og spurði viltu hafa þetta með eða. Já þetta mátti endilega vera með. Hérna viltu þessar upplýsingar eða, já endilega.

Eftir langa íhugun ákvað ég að velja vikublað í áskrift í heilar 8 vikur. Húsbóndinn var að hugsa um að fá uppáhaldsblaðið sitt sent í 4 skipti sem hann kaupir yfirleitt á Bensínstöð. Rétt eins og hann ætti eitthvert val, það var ekki hann sem lagði alla vinnuna fram rétt eins og ég. Full sátt hefur orðið og ég er sátt við Hagstofuna búin að fá hluta af áskriftinni nú þegar. Við erum afskaplega sátt hjónakornin eins og er.


Enn þá af rannsókn af Hagstofu Íslands

Okkur hjónakornin er farið að gruna að allt sé ekki með felldu með rannsóknina. Að því leyti að í fyrstu sé beðið um bara pínulítið en svo sé sum sé bara beðið um allt eða allt að því allt. Að rétta fram litla putta og svo sé öll höndin tekin, þetta er mitt mat. Rétt eins og gærkvöldi þegar ég var búin að vinna um klukkustund í skýrslunni, þvo 1 þvottavél, eldandi yndislegan mat og við ætluðum að horfa á fréttir á stöð 2 spurði ég húsbóndann hve miklu hann hefði eytt í varahluti á síðusta ári. Hann gat raðað saman varahluti í bíla keypta frá Ameríku gegnum dóttur okkar upp á 24.000, hann mundi ekki eftir öðrum varahlutakaupum. Hver man hvað þú keyptir í varahluti í alla bílana 12 mán. aftur í tímann. Ég bara spyr.

Nei þetta er dálítið lævíst, fyrst þarftu bara að gefa upp innkaup í 2 vikur og svo stærri innkaup sl. 3 mánuð og svo bætist endalaust við.

Varðandi grun okkar hjónakorna varðandi rannsóknina er e.t.v. erfitt að fá fólk til þess að taka þátt þrátt f. þessar MIKLU GJAFIR. Nú er ég svikalaust komin með öll útgjöld þe. heimilisútgjöld í 2 vikur, alla reikninga mánaðarins og svo ársútgjöld f. árið.

Er hægt að gera betur. EN ekki biðja mig um aðra könnun.


Færsla úr Hraunbæ

Nú er ég að taka þátt í könnun sem heitir Rannsókn á útgjöldum heimilanna sem Hagstofan stendur fyrir. Aðeins 1.222 heimili voru valin af handahófi úr þjóðskrá. Í rauninni undrast ég hversu fá heimili fá þessa könnun og þess vegna ákvað ég að vera með þrátt fyrir að það kosti vissulega nokkra vinnu. Ég þarf að skrá niður útgjöld heimilisins í 2 vikur og svara spurningum um stærri útgjöld síðustu 3 mánuði.

Þannig að frá mánudeginum 26. sept. hef ég skráð samviskulega öll útgjöld heimilisins. Rétt eins og sagði í leiðbeiningunum með þessari könnun er einfaldast að taka alltaf með greiðslukvittun og láta fylgja með.

Og svo að lokinni könnun og viðtali fæ ég að velja mér gjöf. Ég get valið um margt og er komin með ákveðinn valkvíða. Ég get valið um kaffivél, handþeytara, samlokugrill, hárblásara, skeggsnyrti, baðvog, hraðsuðuketil, sléttujárn eða áskrit að tímariti frá Birtingi í einhverjar vikur. Ég er ekki búin að ákveða mig ennþá. Bestur kveðjur þangað til næst, ég sé að einhverjir eru alltaf að fara inn á bloggið mitt þótt síðasta færsla væri skrifuð f. mánuði síðan, endilega skrifið inn athugasemd.


Allt er breytingum háð

Nú erum við hjónakornin ein eftir í kotinu. Sonurinn er fluttur út og farinn að búa með spúsu sinni suður með sjó. Innkaupin í búð eru því öðruvísi, ég kaupi ekki lengur sterkt pepperoni, ógrynni af osti, kókómjólk, svala, barbíkjúsósu orginal, skyndipizzur, langlokur með osti og pepperoní og 3 stk. af sjampói á viku.

Ennfremur á ég alltof stóra þvottavél sem tekur 7 kg. þvott. Ég á í vandræðum að fylla vélina af þvotti eftir að sonurinn fór. Bestu kveðjur þangað til næst.


Ömmustrákur, pönnukökur og snákamyndband

Við ömmustrákur vorum að passa hvort annað fyrir stuttu. Nú er ég manneskja sem bregður oft og það er virkilega óþægilegt. Rétt áður en von var á mér var hann að gera mömmu sinni bilt við og hún sagði við hann að það væri eins gott að hann gerði ekki svona við ömmu sína, eldra fólk getur orðið veikt af því, eldra fólk lesist ég.

Svo var hann að kenna mér á tölvu heimilisins, þ.e.a.s. að fara úr leikjaprógrammi sem hann notar og inn á internetið. EN hann ætlaði bara að vara mig við einni slóð og vildi ekki að ég villtist þar inn þannig að hann sýndi mér vandlega hvernig ég ætti að fara á slóðina til að vera viss um að ég færi ekki þangað inn. Ég var við tölvuna að skrifa og hann var leiðbeinandinn, farðu inn á youtube sagði hann, skrifaðu svo snake og ég gerði það. Þá komu inn á skjáinn nokkur snákamyndbönd og hann sagði ákveðinn að á efsta myndbandið mætti ég alls ekki ýta, mér myndi bregða. Hann skoðaði myndband nr. 2 og ráðlagði mér alvörugefinn að ýta ekki á það heldur. Ég sagði ömmuling að ég væri lítið inn á youtube, en allur er varinn góður. Ég átti bágt með að halda andlitinu í þessum aðstæðum en ömmustrákur vildi alls ekki að ég færi mér að voða í tölvunni.

Alltaf þegar við ömmustrákur hittumst utan míns heimilis er ég vopnuð pönnukökupönnu, pönnuk.spaða og deigi. Mér finnst best að búa til deigið heima hjá mér og á fullt af öruggum boxum til að flytja deig eða annað í á milli húsa og líka út land.

Hvað gerði svo eldra fólkið þegar það kom heim. Beint í mína tölvu og skoðaði snákamyndbandið hvað annað. Mér virkilega brá og ég ætla ekki að skoða þetta myndband aftur. Alls ekki.


Fornbílamótið á Selfossi síðast

Við hjónakornin mættum að sjálfsögðu á Fornbílamótið á Selfossi. Það þarf nú ekkert að taka það fram að við vorum í Gesthúsi nr. 21. Yndislegt að koma í húsið þurrt og heitt og hreint. Við vorum úti á svæði þegar Fornbílaklúbburinn kom inn á svæðið og gaman að sjá alla hollensku fólksvagnana, bæði húsbíla og litla fólksvagna. Í Hollandi skiptist sum sé Fornbílaklúbburinn þannig að litlir hópar tilheyra sömu tegund bíla. Maturinn í boði Fornbílaklúbbsins var alveg frábær, lambakjöt að sjálfsögðu með öllu hugsanlegu meðlæti. Þökkum f. okkur og sjáumst næst að ári.

Mót Fornbílaklúbbsins á Selfossi

Nú fer að líða að Landsmóti Fornbílaklúbbsins. Eins og áður hefur komið fram hef ég bloggað um þau mál. Við hjónakornin eigum vísa gistingu í húsi nr. 21.

Ég er svo mikill bókaunnandi og safna bókum, keypti 2 áhugaverðar bækur á bókasafni í dag. Bókavörðurinn spurði mig hvort ég fyndi ekkert til að lesa, ég bara kvartaði og sagði að ég keypti yfirleitt áhugaverðar bækur. Svo líka að eins og Árbæjarsafn er gott safn er það ungt og á ekki eldri bækur rétt eins og safnið í Gerðubergi. Gremjulegt. Pantaði áðurútgefnar bækur eftir Tess Gerritsen. Í fyrra á Landsmótinu var ég nefnilega að lesa Stieg Larson, sem er að lesa eins og konfekt. Að lesa góða bók er það besta sem ég veit. Þannig að undirbúningurinn er hafinn með að hafa góðan bókakost með.

Í fyrra labbaði ég út á svæðið til að finna húsbóndann, mikið er gott að hann er hávaxinn og stendur upp úr. Þá eru þeir þar jeppakarlarnir að tala saman og skoða jeppa. Öðru hverju vippar sér einhver undir jeppann og þeir tala tungum sem ég ekki skil, ég þarf heldur ekkert að vera sérfræðingur í legum, bremsuklossum, kúpplingsdiski, ryði og hvað sé orginal og hvað sé ekki orginal. Ég skil samt að best sé að hafa orginal. Grillmaturinn á laugardagskvöldið var bara dýrðlegur, löng biðröð en fyrirhafnarinnar virði. Þetta er bara ágætt, hann liggjandi undir jeppunum til að skoða undirvagninn en ég lesandi bækur.


Stundum er bara gaman að vera til

Það er mikið að gerast í mínu einkalífi núna og gaman að vera til. Til dæmis er ég að hugsa um að fara í nám næsta vetur ef Guð lofar. Þetta er 2ja anna nám í MK, sjáum til. Ég var í afmælisveislu í gær hjá ömmustrák, hann varð 9 ára gamall. Og ef mér skjátlast ekki mun vera von á öðru ömmubarni hér á heimili í haust. Hr. Franz er að róast og lætur ekki skoðun sína ljós nema u.þ.b. vikulega. Hann gerir það líka hressilega, eitthvað hrundi stjórnlaust úr hillum í eldhúsi í gærkvöldi, við hjónakornin litum á hvort annað en þegar að var gáð var allt á sínum stað.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband